Bræðralagið

brotherhood_1937_i

Tákn Agni Yoga   1937.

Íslensk þýðing bókarinnar.

„Það sem helgast er, umvefur bræðralagshugtakið. Það sem gleðilegast er lifir í vitundinni, -að til sé samstarf í þekkingunni.
Slíkar hugsanir staðfesta að til sé sannur samstarfsmaður. Höfum því hugföst þau gildi sem leiða til bræðralags.Þegar hugur er þungur og gildin háu sýnast fjarri, minnumst þá einingar í góðu verki. Það er ógerlegt að snúa frá því sem færir styrk.
Ekkert stendur sem í óeiningu er unnið; hver óhreinindi sem við skiljum eftir eru óæskileg. Þegar búist er til langferða þarf að þurrka af svo vel sé skilið við. Þannig skulum við í allri birtingu lífsins, minnast miðju visku og réttlætis — bræðralaginu.“

„4. Sjaldan er unnt að gera bræðralag að umræðuefni. Einkum á þeim tímum, þegar mikil harka einkennir jarðneskt líf, er oft eins og menn hafi komið sér saman um að vanvirða einmitt þetta hugtak. Nú þegar hefur hin forna siðvenja, að sverja bræðralag með því að blanda saman blóði, breyst í slíka ógn fyrir allt mannkynið að líta má á hin frumstæðustu hefndarvíg sem barnabrek.
Þið sjáið að ég er hér að ræða um efni sem hefur mikla þörf fyrir eflingu og stuðning.

5. Ávarpi einhver samkomu með orðunum, „vinir og samverkamenn,“ fyllast flestir tortryggni. En ef hann dirfist að nefna þau bræður og systur er vísast að hann verði ásakaður um að viðhafa ósæmilegt orðbragð.
Menn hafa stundum stofnað bræðralög, en svo yfirborðslegur og hástemmdur félagsskapur á ekkert sameiginlegt með hinu háleita bræðralagshugtaki. Menn stofna einnig sameignarfélög, samvinnufélög, ýmis konar bandalög og hreyfingar; en þar finnst ekki einu sinni einfalt traust. Af því leiðir að þessar stofnanir komast ekki nálægt því bræðralagi sem er sterk og stöðug eining byggð á trausti.
Hugsanlegt er að nú á tímum láti nokkrar góðar sálir sig dreyma um að mynda samtök sem byggjast eingöngu á gagnkvæmu trausti. Ekki er hægt að halda því fram að allt sé slæmt, þegar menn geta séð brot þess sem einkenna mun komandi tímaskeið.
Yfir rústum hinna fornu tákna er mögulegt að sjá lífsmátt frumhugtakanna. Einmitt þegar allt virðist í rúst frá jarðnesku sjónarmiði, má sjá að hin fegurstu hugtök eru að fæðast.“

 

Skilboð