Some thoughts on the Gita.

GitaBókin „Some thoughts on the Gita“,  er stórkostleg bók fyrir alla dulspekinga. Hún er gefin út 1893 af Kumbhakonam Branch Theosophical Society. Titil hennar var upphaflega „Thoughts on Bagavad Gita“. Höfundur bókarinnar, sem upprunalega voru tólf fyrirlestrar sem lesnir voru á jafnmörgum sunnudögum í röð, er óþekktur en kallaði sig  Brahmin F.T.S (F.T.S. stóð fyrir Fellow of the Theosophical Society).

Bókin féll í gleymsku þar til að vitnað var í hana í „A Treatise on Cosmic Fire“. eftir A.A.B. Bókin var þá ljósprentuð 1983 og þannig er hún með upprunalegum prentuðum texta.

Efni bókarinnar er eins og segir í titlinum, hugleiðingar um efni Bagavad Gita, sem er hluti hins forna og merka indverska ljóðabálks  Mahabharata. Hann var upprunalega ritaður á Sankrit fyrir rúmum 5000 árum.  Bagavad Gita fjallar um samtal Arjuna og Krishna. Höfundur tengir hinsvegar kenningar HBP inní í efnið ásamt fjölmörgu öðru. Yfirburða þekking höfundar á dulspekilegri heimspeki kemur á óvart en skilst kannski aðeins þeim sem hafa lesið andlega heimsspeki og eru tilbúnir að leggja talsvert á sig við lesturinn.

Tilvitnanir úr bókina í Kosmíska Eldinum:

Atma merkir, eins og þið öll vitið, sjálfið, egóið eða hina sérgreindu vitundarmiðju sem öll veraldleg reynsla í sínu tvíþætta hlutlæga og óhlutlæga eðli snýst um og skipast umhverfis.  Það virðist vera nokkurs konar brennipunktur sem stafar frá sér geislum ljóss sem lýsa upp hin kosmísku vötn.  Í því virðast einnig mætast geislarnir sem þessi kosmísku vötn senda til baka.  Í guðspekiritum er það nefnt sjálfsmeðvituð einstaklingsvitund eða æðri hugurinn (manas).  Af þessu sést að æðri hugurinn er mikilvægasti eðlisþáttur eða þungamiðja mannsins, hin sanna sál.  Hann er sá þráður sem leitandinn ætti að grípa til að þekkja sannleikann og hefja sig upp úr hinni takmörkuðu tilveru.  Þar á móti mætti segja að atma standi fyrir sjöunda eðlisþáttinn í sjögreiningu guðspekinnar, og að manas sé langtum neðar í stiganum.  En svarið við því er einfaldlega það að sjöundi eðlisþátturinn er æðsta markmiðið sem sjálfið getur náð eftir að það hefur komist yfir úthaf hinnar takmörkuðu tilveru eða samsara.“ — Úr Some Thoughts on the Gita, bls. 26.

„Þegar litið er á karma frá þessu sjónarmiði, kemur í ljós að ekkert svið hins æðsta andlegleika, sem er svið þeirra sem náð hafa nirvana, er utan hjóls karma, og þegar sagt er í sanskrítarritum, og jafnvel í Bhagavat Gíta, að menn hafi siglt yfir hið karmíska úthaf, verður að taka því með nokkrum fyrirvara.  Þær verur, sem sagt er að hafi komist út fyrir hjól karma, hafa gert það aðeins að því leyti sem það varðar hjólið sem nú snýst.  Alheimurinn er ekki fastur í sömu rásinni alla daga Brahma, hann færist yfir á æ hærra stig eftir því sem hann lýkur verkefnum sínum.  Þeir sem náð hafa því markmiði, að geta hvílst á andlegu sviði utan seilingar nú, munu því á einhverju framtíðar tímaskeiði lenda innan áhrifasviðs hjólsins og þurfa þá ef til vill að gjalda fyrir langtíma vanrækslu á miklum skyldum.“ — Úr Some Thoughts on the Gita, bls. 40.

„Karma má skilgreina sem kraftinn sem mennsk vera framleiðir og beitir á hinn ytri heim. Svörunin sem hinn ytri heimur framleiðir og verkar á manninn má kalla karmísk áhrif, og hin sýnilega afleiðing sem þessi áhrif valda við réttar aðstæður má kalla ávöxt karma.“ — Úr Some Thoughts on the Gita, bls. 53.

. . . Aðferðina, sem Sri Krishna gefur Arjuna undir nafninu Jóga, nefnir hann hið jagníska líf (4.kafli, 1.grein). Jóga og jagna eru í raun nátengd og jafnvel óaðgreinanleg, þó svo fólk virðist aðgreina þetta tvennt nú á tímum. Orðið jóga (yoga), sem dregið er af rótinni yuj, að tengja, merkir athöfnina að tengja saman. Þar sem hjartað er nú hin miðlæga orkustöð mannsins hefur jógi hjartans miðlæga stöðu í alheiminum, af því leiðir einstaklingseðli hans. Einstaklings­eðlið eða æðri hugurinn (manas) er þungamiðjan í uppbyggingu mannsins, eða orkustöðin sem hin tvö hálfhvel æðri og lægri tilveru snúast um, eins og ég hef áður minnst á. Yfir jóga hjartans hvelfist himneskt hvolfþak og undir honum er jarðneskt hyldýpi og af því leiðir að jóga hans verður tvígreint. Hann tengir sjálfan sig hinu efra í dhjana og hlutunum hið neðra í athöfnum. Orðið jagna (yagna), dregið af rótinni yaj, að þjóna, merkir einnig tvíþætta þjónustu, það er þjónustan við hlutina hið efra með þjónustu sem innt er af hendi við birtingu þeirra, hlutina hið neðra.“ — Úr Some Thougths on the Gita, bls. 18 og 134.

… „hljóð er meginkrafturinn sem knýr hjól náttúrunnar fram á við í hina skynjuðu átt. Hljóð er fyrsti þáttur hins raunbirta fimmhyrnings, þar sem það er einn eiginleiki ethersins sem nefnist akas. Eins og ég hef áður sagt er upplestur Vedanna hinn æðsti jagnam sem felur í sér öll minni jagnam og leitast við að viðhalda hinum raunbirta fimmhyrningi í réttri mynd. Það var skoðun hinna fornu heimspekinga að hljóð eða talað orð komi næst hugsun að vera æðsti karmíski áhrifavaldurinn sem maðurinn getur beitt.

„Í öðrum hluta Vishnú Púrana muntu sjá að mátturinn sem býr í sólinni er táknaður með hinum þríhliða Vedíska mætti, það er mátturinn sem Rik skapar, Jadjus viðheldur og Sama eyðir. Rik er því sköpunarsöngur tívanna í sólinni. Jadjus er söngur varðveislu og Sama söngur eyðingar tívanna í sólinni og uppbygg­ingar tívanna á tunglinu. Rik er því söngur tíva og Sama söngur pitría og Jadjus söngur þess sem er á milli. Að sjálfsögðu hlýtur hlutverk Vedanna að vera breytilegt eftir mismunandi sjónarmiðum. Sama er söngur uppbyggingar fyrir pitría og Rik tónn eyðingar. Vedurnar þrjár samsvara öllum þrenningum í náttúrunni, og ég mælist til þess að frekari upplýsinga sé aflað í hinum mjög svo misnotuðu Púrana ritum. . . .“

„Af öllum hinum mismunandi karmísku áhrifum sem maðurinn beitir til að móta sjálfan sig og umhverfi sitt er hljóð eða hið talaða orð mikilvægast, af þeirri ástæðu, að talað mál er um leið starf í ether-efni sem að sjálfsögðu ræður yfir hinni lægri fernd frumefnaflokkanna, lofti, eldi, vatni og jörð. Hljóð eða tungumál mannsins býr því yfir öllum þáttum sem nauðsynlegir eru til að koma hinum mismunandi flokkum tíva á hreyfingu. Þessir þættir eru að sjálfsögðu sérhljóðarnir og samhljóðarnir. Þekkingaratriðin úr fræðigrein hljóðsins, eins og það tengist tívunum sem ráða ríkjum í hinum fíngerða heimi, tilheyra sviði hins sanna Mantra Sastra sem að sjálfsögðu er á valdi þeirra sem yfir þekkingu búa.“ –Some Thoughts on the Gita bls 72.

[1] . . . „Vedan, alheimssöngur settur fram í mennskum búningi, var gefin mönnum til notkunar dulspekilega frá sjónar­miði innihalds og merkingar og kynngimagnað frá sjónarmiði réttrar framsagnar.  Heimssöngurinn lýtur sérstökum hlutfallslög­málum eða Pýþagórískri stærðfræði, og með þeim unaðsáhrifum sem hann hefur haft á svið hins kosmíska efnis hefur hann komið af stað í því síðastnefnda ferli kristöllunar sem heimspekingurinn Plató nefndi rúmfræði alheimsins.  Hin margvíslegu form sem sjá má, allt frá sameind í saltkristalli til hins dásamlega og flókna lífkerfis mannslíkamans, eru öll verk hins mikla kosmíska rúmfræðings sem þekktur er undir heitinu Viswakarma, tívasmiður­inn í Púrana ritunum.  Hin opinberaða Veda, sem hefur það hlutverk að mynda alheiminn frá einum grunnhljómi táknuðum með ÓM, deilist í hina upphaflegu þrjá, á eftir fylgja sjö sérhljóð­ar, sem síðan mynda sjö tóna sem verða svo að sjö samsetningum hinna sjö tóna byggðar á þrem grunntónum og úr þeim verða svo lofsöngvar.  Þegar allt þetta færðist yfir á hið efnislega svið samhljóðanna, mynduðust smám saman hin raunbirtu kristölluðu form sem til samans teljast vera alheimurinn.  Fyrir hugsuðinum er heimurinn orðinn til fyrir kynngi hins Orfíska söngvara eða Hindúans Saraswati. . . .“

Manas er einstaklingseðlið eða hið andlega sjálf sem tilheyrir æðri þrenndinni, en persónuleikinn eða lægra sjálfið tilheyrir lægri ferndinni.  Manas er þungamiðja hinnar mannlegu veru, eða miðpunkturinn sem bæði hinn andlegi og efnislegi hluti mannsins snúast um.“

„Lægri manas er aðeins geisli frá æðri manas niður í hið holdlega musteri til að lýsa upp tilveru þess og gefa því hugsun, löngun og minni.“

„Það er vegna þess að manas er vendipunkturinn á tímaskeiðinu, að H.P.B. hefur skoðað hann í sínum tveimur þáttum – æðri og lægri – þann æðri sem viðtakandi og upplifandi andlegra hæða og þann lægri sem sál hinna lægri þriggja, þríhyrningsins sem fullkomnar birtinguna.  Manas er því orrustuvöllur kraftanna í smáheiminum . . . . Þróunarstigið sem við nú erum búin að ná er við upphaf hinnar miklu baráttu.“ – Some Thoughts on the Gita.

 

Pitríar.

„Það sem ég nefndi fullkomna andlega stjórnskipun er það sem er þekkt sem swarga í Sanskrítarverkum okkar, og verurnar sem þar starfa nefnast pitríar (Pitris), sem merkir að sjálfsögðu feður.  Í púrönum okkar er oft rætt um þessa pitría eins og þeir séu andstæða tívanna, og það hefur leitt til þess að sumir Hindúar, og þar með taldir margir guðspekingar, telja að pitríarnir og tívarnir dvelji á aðgreindum sviðum lífsins.  En pitríar og tívar eru alltaf til saman, þar sem tívarnir gefa vitundina og pitríarnir mynda líkamann.  Þessi hugtök eru afstæð.  Ef pitríar eru vatn þá eru tívar eldurinn í vatninu.  Ef pitríarnir eru eldur, þá eru tívarnir loginn í eldinum.  Ef pitríarnir eru loginn, þá eru tívarnir vitundarþátturinn sem koma loganum af stað og gefa þeim mátt til að lýsa upp heiminn og lætur þá vera til sem þátt í vitund okkar.  Frá æðsta til lægsta sviðs lífsins láta pitríarnir í té hinn hlutlæga þátt og tívarnir hinn huglæga þátt, og lífið sjálft er straumur sem myndar miðlínuna. . . . Í stað þrískiptingar er nákvæmara að tala um sjöskiptingu, og gefa má tívunum hina þrjá æðri og pitríunum hina þrjá lægri og miðjuna til straums lífsins, sem má líta á sem punktinn þar sem tívakjarna er breytt í pitríkjarna, eða hið óskipta er gert hæft til skiptingar, neðan frá séð, eða hið óbirta verður hið birta.“ – Some Thoughts on the Gita, bls. 56.

 

Tenging í bókina á ensku kemur síðar.

Skilboð