Bræðralag manna
8. May 2014Hugsun
23. February 2024ÚTDRÁTTUR ÚR YFIRLÝSINGU TÍBETANS
Gefinn út í ágúst 1934
„Látum nægja að segja að ég sé tíbetskur lærisveinn af ákveðinni gráðu, en það segir lítið, því allir eru lærisveinar, frá hinum auðmjúkasta leitanda allt til, og handan, Krists sjálfs. Ég hef efnislíkama eins og aðrir menn, er búsettur á landamærum Tíbets og (frá veraldlegu sjónarmiði) er ég stundum í forsæti fyrir stórum hópi tíbeskra lama, þegar aðrar skyldur mínar leyfa. Þessi staðreynd hefur valdið því að sagt hefur verið að ég sé ábóti í þessu tiltekna lamaklaustri. Þeir sem tengjast mér í starfi Helgistjórnarinnar (og allir sannir lærisveinar tengjast í því starfi) þekkja mig undir öðru nafni og starfsheiti. A.A.B. veit hver ég er og þekkir mig undir tveimur af nöfnum mínum.
Ég er bróðir ykkar sem hefur ferðast ögn lengra á Veginum en meðalneminn og hef þess vegna kallað yfir mig meiri skyldur. Ég hef glímt og barist áfram inn í meira ljós heldur en sá leitandi sem les þessa grein og ég verð þess vegna að gegna hlutverki miðlara ljóssins, hvað sem það kostar. Ég er ekki gamall maður miðað við aldur kennaranna, en ég er samt hvorki ungur né óreyndur. Starf mitt er að kenna og útbreiða þekkingu hinnar ævarandi visku, hvar sem ég finn svörun, og þetta hef ég gert í mörg ár. Ég reyni einnig að aðstoða Meistara M. og Meistara K.H. hvenær sem tækifæri gefst, því ég hef lengi verið í sambandi við þá og starf þeirra. Í því sem að ofan greinir hef ég sagt ykkur mikið, en samt sem áður hef ég ekki sagt ykkur neitt sem gæti fengið ykkur til að bjóða fram þá blindu hlýðni og fávíslegu dýrkun sem tilfinningaríkur leitandi bíður kenniföður eða meistara sem hann er ekki enn fær um að komast í samband við. Nemandinn mun heldur ekki ná hinu þráða sambandi, fyrr en hann hefur umbreytt tilfinningalegri dýrkun í óeigingjarna þjónustu við mannkynið – ekki við meistarann.
Bækurnar sem ég hef skrifað eru sendar út án nokkurrar kröfu um að þær hljóti viðurkenningu. Þær eru eða eru ekki réttar, sannar og gagnlegar. Það er ykkar að ákvarða sannleiksgildi þeirra með réttri ástundun og beitingu innsæis. Hvorki ég né A.A.B. höfum minnsta áhuga á að þær séu hylltar sem innblásin ritverk, eða að nokkur tali um þær (með trúarákafa) sem verk eins af meisturunum. Setji þær fram sannleika á þann hátt, að fylgi í kjölfar þess sem þegar hefur komið fram í kenningum heimsins, lyfti upplýsingarnar sem fram koma þrám og þjónustuvilja af sviði tilfinninganna upp á svið hugans (sviðið þar sem hægt er að finna meistarana), þá hafa þær þjónað tilgangi sínum. Ef sá fróðleikur sem fram er settur kallar á viðbrögð frá upplýstum huga starfandans í heiminum og veldur því að innsæi hans ljómar, látum þá fræðsluna öðlast viðurkenningu, annars ekki. Ef staðhæfingarnar fá í fyllingu tímans staðfestingu, eða eru metnar réttar samkvæmt lögmáli samsvörunar, þá gott og vel. En ef svo er ekki, þá skyldi neminn ekki meðtaka það sem fram er sett.“
Þessi orð eru í inngangi umfangsmesta rits A.A.B. „Fræðslan um kosmíski eldurinn“. Höfundurinn er ekki nefndur á nafn en er sagður Meistari D.K, einnig nefndur Djwal Khul.
Eiginmaður A.A.Bailey, Foster Bailey ritaðu svo um samstarfs hennar og D.K.
“Þetta ritverk, Fræðsla um kosmíska eldinn, var fyrst gefið út árið 1925. Það var þriðja bókin sem sam-starfið leiddi af sér, og hún ber með sér að hún mun standa sem helsti og djúpstæðasti hluti hins þrjátíu ára samstarfs, án þess að gert sé lítið úr dýpt og gagnsemi þeirra rita sem gefin voru út í ritröðinni A Treatise on the Seven Rays (Geislarnir sjö), né heldur annarra bóka.
Á þeim langa tíma sem verkið tók urðu hugir Tíbetans og A.A.B. svo nátengdir að þeir voru í raun – hvað varðaði framsetningu fræðslunnar – eitt sameiginlegt starfstæki. A.A.B. talaði oft um undrun sína yfir þeirri innsýn sem hún fékk með hugrænu sambandi sínu við Tíbetann, sýn inn í takmarkalausar víðáttur andlegra sanninda, sem hún hefði alls ekki getað fengið á annan hátt, og oft þannig að hana var ekki unnt að túlka með orðum. Þessi reynsla var forsenda þess sem hún lýsti oft yfir, en sjaldan var skilið, að öll fræðslan, sem hún var að aðstoða við að koma á framfæri, væri í raun aðeins byrjunaratriði hinnar esóterísku þekkingar, og að í framtíðinni myndi hún fúslega hverfa frá framsetningu núverandi kenninga ef hún fyndi betri og dýpri esóteríska fræðslu. Þó svo fræðslan í bókunum, sem gefnar hafa verið út undir hennar nafni, sé í raun skýr og djúpstæð, eru sannindin sem látin eru í té ófullgerð og háð síðari tíma opinberun og útvíkkun. Þessi staðreynd gefur okkur aðra mjög þarfa tryggingu gegn þeim eiginleika hins lægri hluthæfa huga, að festa sig í trúarkreddum.
Strax í upphafi samstarfsins, eftir vandlega íhugun, var það afráðið milli Tíbetans (D.K.) og A.A.B. að hún sem starfandi lærisveinn á efnissviðinu myndi axla eins mikla karmíska ábyrgð og hægt var á því sviði, og að fræðslan myndi verða sett fram undir hennar nafni. Þetta fól í sér byrði leiðtogans á hinu esóteríska sviði og bylgju árása og fordæminga frá persónum og félagasamtökum sem í stöðu og athöfnum voru meira undir áhrifum fiskamerkisins.
Grundvöllurinn, sem hin esóteríska fræðsla stendur á frammi fyrir öllum almenningi, er laus undan takmörkunum og heimsku dulúðar, sýndarljóma, fullyrðinga og óraunsæi vegna þeirrar afstöðu sem Tíbetinn og A.A.B. hafa tekið. Þessi afstaða gegn kreddubundnum fullyrðingum hefur stuðlað að hugrænu frelsi fyrir nemendur hinnar sífelldu opinberunar hinnar ævarandi visku.”